154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Stundum verður manni fátt um svör og mér líður þannig akkúrat núna. Ef ég skil hv. þingmann rétt er hann í raun og veru að halda því fram hér í ræðustól þingsins að ástæða verðbólgunnar sé aðflutt erlent vinnuafl á Íslandi. (EÁ: Þið segið það sjálf í nefndarálitinu.) Ég bara spyr hv. þingmann, sem ég reyndar get ekki í þessu andsvari. (Gripið fram í.) Ég bara skil ekki svona umræðu. Auðvitað hefur þetta áhrif, það kemur fram í nefndarálitinu, en ég sé ekki hvernig íslenskt efnahagslíf á að fúnkera öðruvísi en með þessu ágæta fólki sem hér er að vinna fyrir okkur störfin úti um allt land. Þær verðbólguletjandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem hv. þingmaður kallar hér eftir — það er fjárlagafrumvarpið. Það er fjárlagafrumvarpið.